Cape Green vinnur Nordic Built Challenge samkeppni á Island

Íslenskur hópur undir forystu VA arkitekta vinnur alþjóðlega keppni um vistvæna endurhönnun Höfðabakka 9 með tillögu sinni sem nefnd er Cape Green.
Published 11/09/2013 | Last updated 11/09/2013

Tillaga íslensks hönnunarhóps undir forystu VA arkitekta var valin úr átján tillögum sem bárust víða að úr heiminum. Keppnin var hluti af Nordic Built Challenge, keppni um vistvæna endurhönnun fimm norrænna bygginga, og haldin að frumkvæði Norrænu ráðherranefndarinnar og Nordic Innovation. Verkís og Landmótun unnu að verkefninu með VA arkitektum.

 

Reitir fasteignafélag er eigandi Höfðabakka 9. Þegar er hafin vinna við vistvæna endurhönnun en gert er ráð fyrir að áframhaldandi þróun svæðisins verði mótuð af vinningstillögunni þar sem vatn, gróður, skjólmyndun og dagsljós leika mikilvægt hlutverk í mótun svæðisins. Gert er ráð fyrir opnum regnvatnslausnum og auknum gróðri, þakgörðum á viðbyggingu og nýbyggingu auk þess að bogabyggingin verður klædd með glertrefjadúk. Eftir því sem uppbygging svæðisins þróast mun bílum á yfirborði fækka. Tímasetning stærstu framkvæmdanna mun ráðast af eftirspurn en nánari útfærsla verður þróuð í samstarfi Reita, VA arkitekta og fyrirtækjanna á svæðinu.

 

Frá 12. til 22. september verða tillögurnar fjórar sem voru í undanúrslitum keppninnar til sýnis á fyrstu hæð Kringlunnar. Vinningstillögurnar eru einnig til sýnis á heimasíðu Nordic Built: http://www.nordicinnovation.org/nordicbuilt/the-challenge/

 

Anna Sigríður Jóhannsdóttir, arkitekt hjá VA arkitektum:

 

- Endurhönnun á Höfðabakka 9 er stórkostlegt tækifæri til að skapa nútímalega og vistvæna umgjörð utan um líf og störf á þekktu atvinnusvæði í höfuðborginni. Aðalhugmyndafræði tillögunnar er að skapa vistvænt atvinnusvæði og styrkja vægi aðalbyggingarinnar. Með því að móta fjölbreytt og aðlaðandi borgarumhverfi þar sem lögð er áhersla á náttúruleg gæði er stuðlað að aukinni vellíðan fólks sem þar starfar. Núverandi gata verður að fjölnota torgi þar sem fótgangandi og hjólandi hafa forgang og gróður og vatn auka á rólegt og heilnæmt yfirbragð svæðisins. Glertrefjadúkur sem klæddur er utan á aðalbygginguna þjónar margþættum vistvænum tilgangi auk þess að styrkja ímynd svæðisins sem nútímalegt, vistvænt atvinnusvæði. Þakhæðir með aðgengi út á þakgarða gefa möguleika á annarskonar starfsemi og grænu umhverfi. Nýbyggingar sem lagðar eru til á svæðinu fullmóta heildarmynd svæðisins innan nýrrar hugmyndafræði.

 

Guðmundur Tryggvi Sigurðsson, formaður dómnefndar og forstöðumaður eignaumsýslusviðs hjá Reitum fasteignafélagi:

 

- Við hjá Reitum erum mjög ánægð með keppnina og þátttöku okkar í Nordic Built samstarfinu. Í keppninni komu fram margar góðar hugmyndir sem verða vonandi til þess að gera byggingar vistvænni í framtíðinni. Klæðning byggingarinnar með glertrefjadúk er einstaklega spennandi ný aðferð til að auka endingartíma bygginga og bæta innivist m.a. með því að jafna hitastig og draga úr beinu sólarljósi. Nauðsynlegt er að fara í ýtarlega rannsóknarvinnu áður en tekin verður endanleg ákvörðun um útfærslu.